Þúsund sænskir strandaglópar

Sænska ferðaskrifstofan Fly Home samdi við Primera Air um flutning …
Sænska ferðaskrifstofan Fly Home samdi við Primera Air um flutning farþega á sínum vegum. mbl.is

Sænsk samgönguyfirvöld ætla að skoða afstöðu flugfélagsins Primera Air sem telur að sér beri ekki skylda til að fljúga um þúsund sænskum farþegum gjaldþrota ferðaskrifstofu aftur heim. Primera Air telur sig ekki bera ábyrgð á heimflutningi farþeganna því þeir hafi samið beint við ferðaskrifstofuna.

Primera Air er hluti af Primera Travel Group sem m.a. á Heimsferðir og Terra Nova hér á landi.

Um eitt þúsund Svíar eru nú strandaglópar í Líbanon og Írak eftir að ferðaheildsalinn Fly Home varð gjaldþrota í síðustu viku. Þeir geta ekki vænst neinnar aðstoðar frá flugfélaginu Primera Air, að því er fram kom í fréttaþættinum Ekot í sænska útvarpinu í dag.

Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri Primera Air, sagði við sænska útvarpið í Gautaborg að Primera beri ekki neina ábyrgð  því flugfélagið hafi ekki fengið borgað fyrir flugið.

Jón Karl sagði í samtali við mbl.is að málið snúist um óvissa réttarstöðu þeirra farþega sem kaupi farmiða af fyrirtæki á borð við Fly Home. „Við vorum bara með samning við þá um flug og fengum greitt fyrir hvert flug og flugum þau flug sem var borgað fyrir,“ sagði Jón Karl.

Primera Air á nú í bréfaskiptum við sænsk ferðamálayfirvöld vegna málsins. Jón Karl segir að Primera Air hafi lýst vilja sínum til að finna einhverja lausn á vandanum, en ekki sé hægt að klína gjaldþroti óskylds aðila á lítið flugfélag.

Ferðaheildsalinn Fly Home var það sem kallað er ferðaskipuleggjandi og setti upp flugferðir í eigin nafni, án þess að vera eiginlegt flugfélag. Farmiðarnir voru seldir í nafni Fly Home og allir ferðaskilmálar í þeirra nafni.

Félagið samdi síðan við flugfélög og í þessu tilviki var samið við Primera Air. Jón Karl sagði að Fly Home hafi borgað fyrir hverja flugferð átta dögum fyrir flugið og sent farþegalista tveimur dögum fyrir flug. Þar með tók Primera Air ábyrgð á farþegunum í umræddri ferð og flugu þeir með flugvélum Primera Air til Líbanon og Írak.

Jón Karl sagði að Primera Air hafi ekki gert neina beina samninga við farþegana og hafi ekki neinar upplýsingar um þá, bókanir til baka, hvort þeir hafi borgað né annað.

Þegar Fly Home varð svo gjaldþrota hafi menn farið að lesa reglugerðir og fundið það út að Primera Air hljóti að bera ábyrgð.

„Við seldum aldrei miðana og höfum ekki neinar upplýsingar um farþegana hvað þá að hafa fengið peninga fyrir þessu. Þetta stendur í stappi, því miður. Þetta er prinsipp mál sem verður að fá botn í,“ sagði Jón Karl.

Hann sagði þetta mál ekki einsdæmi. Því miður hafi það gerst áður að ferðaskrifstofur hafi búið til „sýndarflugfélög“ þar sem þeir sem auglýsa flugið séu ekki flugfélag í raun. Þeir semji síðan við raunverulegt flugfélag um flutninga farþeganna. Jón Karl sagði að óvissa ríki um hver beri raunverulega ábyrgð þegar sýndarflugfélagið leggi upp laupana.

Jón Karl sagði að samkvæmt EES-reglum eigi sá sem selur þjónustu að tryggja að sá sem kaupir þjónustuna fái það sem hann greiddi fyrir. „Við höfum ekki selt neina þjónustu nema til Fly Home sem er farið,“ sagði Jón Karl.

Jón Karl Ólafsson
Jón Karl Ólafsson Árvakur/ÞÖK
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert