Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, varaði Líbani við í dag og sagði að Ísraelar myndu bregðast mjög hart við frekari ófriði og ögrunum við sameiginleg landamæri ríkjanna.
Viðvörun Nethanyahu, sem setti ríkisstjórn Líbanon á bekk með Hamas-liðum Palestínumanna, kom á sama tíma og hernaðarfulltrúar Ísraels, Sameinuðu þjóðanna og Líbanon unnu að því á bakvið tjöldin að kæfa eldana.
„Ég vil gera Hamas það ljóst og líka ríkisstjórn Líbanon sem við teljum bera ábyrgð á ofbeldisfullum ögrunum í garð hermanna okkar að þeir ættu ekki að láta reyna á einbeittan ásetning okkar að verja ísraelska borgara og hermenn,“ sagði Netanyahu.
Bandaríkin hafa tekið undir þá staðhæfingu Ísraelsmanna að herlið þeirra hafi verið í reglubundnu eftirliti sín megin landamæranna í gær þegar líbanskir hermenn réðust óvænt á þá.
Átökin í gær voru þau mannskæðustu við landamæri Líbanon og Ísraels í fjögur ár. Fjórir létu lífið, ísraelskur ofursti, tveir óbreyttir líbanskir hermenn og líbanskur blaðamaður.