Kastró aftur til valda á Kúbu?

Fídel Kastró í Havana.
Fídel Kastró í Havana. Reuters

Fídel Kastró, fyrrverandi forseti Kúbu, er sagður ætla að ávarpa þjóðþing landsins nú um helgina í fyrsta skipti í fjögur ár. Ríkisfjölmiðlar á Kúbu segja að sérstakur þingfundur verði haldinn um utanríkismál, að beiðni Kastró, á laugardag.

Kastró, sem er 83 ára gamall, lét af völdum árið 2006 vegna veikinda og tók þá yngri bróðir hans Raúl við forsetasætinu. Nú segist hann hinsvegar vera orðinn heill heilsu og hefur æ oftar látið sjá sig a opinberum vettvangi undanfarinn mánuð.

Í fyrri ræðum sínum um utanríkismál hefur Kastró gjarnan varað við þeirri hættu sem hann telur vera af yfirvofandi kjarnorkustríði með aðkomu Bandaríkjanna, Ísraels, Íran og Norður-Kóreu. Á þriðjudag beindi hann því til Barack Obama Bandaríkjaforseta um að stuðla að heimsfriði. „Þú átt að vita að þú hefur valdið til að bjóða mannkyninu eina raunhæfa möguleikann á friði," sagði Kastró.

Bati Kastró hefur komið mörgum íbúum Kúbu mjög á óvart og kynt undir vangaveltur um hvort hann sækist aftur til aukinna áhrifa á stefnu ríkisstjórnarinnar. Umbótasinnar óttast að hann kunni að standa í vegi fyrir breytingum sem geti lappað upp á bágan efnahag eylandsins. Raúl Kastró, bróðir hans, hefur vísað á bug öllum spurningum um hvort klofningur sé í yfirstjórn kommúnistaflokksins á Kúbu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert