Sænskt netfyrirtæki, sem tengist skráaskiptavefnum The Pirate Bay, segist aðstoða vefinn WikiLeaks við að birta leyniskjöl og hafi veitt vefnum aðgang að netþjónum í kjallara húss í Solna, úthverfi Stokkhólms.
Mikael Viborg, eigandi vefhýsingarfyrirtækisins PRQ, sýndi fréttamanni AP staðinn, kjallara drungalegrar skrifstofubyggingar, með því skilyrði að heimilisfangið yrði ekki birt.
Bandarísk stjórnvöld hafa krafist þess, að WikiLeaks afhendi tugþúsundir leyniskjala um hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna í Afganistan. WikiLeaks segist hafa aðgang að netþjónum í ýmsum löndum en hefur ekki veitt frekari upplýsingar.
Viborg sagði, að sænsk stjórnvöld vissu um netþjónana í Solna en hefðu ekki reynt að slökkva á þeim.