Líbönum brugðið vegna handtöku njósnara

Moska i Beirút, höfuðborg Líbanon.
Moska i Beirút, höfuðborg Líbanon. JAMAL SAIDI

Líbönum er að sögn mjög brugðið yfir handtökur Fayez Karam í vikunni, virts hershöfðingja og stjórnmálamanns, vegna gruns um að hann hafi stundað njósnir fyrir Ísraelsmenn. Margir velta því nú fyrir sér hversu djúp ítök Ísraelsríki hafi í Líbanon.

Karam, sem var meðlimur í Kristnu þjóðernishreyfingunni (FPM) í Líbanon er fyrsti stjórnmálamaðurinn sem handtekinn er í landinu í kjölfar víðtækrar rannsóknar sem hleypt var af stokkunum 2009 á njósnaneti Ísraela í landinu. AFP hefur eftir ónefndum heimildarmanni að stuttu eftir handtökuna á mánudag hafi Karam játað á sig njósnir fyrir Ísrael. „Þú getur ekki handtekið mann eins og hann án þess að hafa óhrekjanlegar sannanir og það voru nægilegar sannanir fyrir hendi gagnvart honum," segir heimildarmaðurinn.

Líbanon, ásamt Sýrlandi, á tæknilega séð enn í stríði við Ísrael og vakti handtakan því mikla athygli og undrun. Líbanska hernum mun vera mjög brugðið vegna tíðindanna. Alls hafa um 100 manns verið handteknir í tengslum við njósnarannsóknina en í kjölfar handtöku Karam velta Líbanar því nú fyrir sér hver verði næstur og hverjum sé hægt að treysta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert