Sameinuðu þjóðirnar segja í dag að flóðin miklu í Pakistan hafi nú haft áhrif á 13,8 milljónir manns í landinu og hafi skapað enn meiri neyð og eyðileggingu en flóðbylgjan sem skall yfir fjölmörg ríki í kjölfar jarðskjálftans um jólin 2004. Meðal eftirlifenda fer reiðin vaxandi. Yfirvöld í Pakistan segjast eiga meiriháttar verkefni fyrir höndum að finna heimili fyrir alla þá sem hafa þurft að flýja flóðasvæðin og misst allt sitt.
Ríkisstjórn Pakistans og SÞ hafa hvatt til þess, að aukinn kraftur verði settur í alþjóðlega neyðaraðstoð til að bregðast við afleiðingum flóðanna og er forseti landsins, Asif Ali Zardari, nú á heimleið eftir Evrópuför sína sem mikið hefur verið gagnrýnd.
Stór landsvæði hafa lokast algjörlega að vegna flóðanna, s.s. Swat dalurinn þar sem Pakistanar hröku Talíbana á brott í fyrra og hveitiræktarsvæðin í Punjab og Sindh sem kölluð eru brauðkarfa þjóðarinnar.
„Þessar hamfarir eru verri en flóðbylgjan, jarðskjálftinn og Pakistan 2005 og jarðskjálftinn á Haítí," hefur AFP eftir Maurizio Giuliano, talsmanni Neyðaraðstoðar SÞ.
Hann bendir á að flóðin hafi nú snert líf tæplega 14 milljóna Pakistana, samanborið við að 3 milljónir hafi orðið fyrir áhrifum í jarðskjálftanum árið 2005, 5 milljónir í tsunami flóðbylgjunni og 3 milljónir í jarðskjálftanum á Haítí í janúar á þessu ári.
Yfirvöld í Pakistan segjast eiga meiriháttar verkefni fyrir höndum að finna heimili fyrir alla þá sem hafa þurft að flýja flóðasvæðin og misst allt sitt. Fulltrúar SÞ í Pakistan segja nauðsynlegt að neyðaraðstoð verði margfölduð.