Netanyahu: Árásin á skipalestina var lögleg

Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði í dag að árás ísraelska hersins á skipalest sem flutti hjálpargögn til Gaza-strandarinnar, hefði verið lögleg og að Ísraelsríki hefði ekki brotið lög með henni.
Netanyahu ásakaði tyrknesk stjórnvöld líka um að reyna að hagnast á atvikinu.

„Ég er sannfærður um að þegar rannsóknin verður yfirstaðin, verði orðið ljóst að Ísraelsríki og IDF (varnarsveitir þess) hegðuðu sér í samræmi við alþjóðalög,” sagði Netanyahu við Tirkel-rannsóknarnefndina, þegar hann hóf vitnisburð sinn um árásina. „Ég tel að smáatriðin muni skýrast og að þið munuð komast að rót sannleikans.”

Hann hóf vitnisburð sinn á því að lýsa stefnu Ísraela gagnvart Hamas og hugmyndunum að baki siglingabanninu. Hann sagði að Tyrkir hefðu ekkert gert til að koma í veg fyrir að skipalestin bryti bannið, jafnvel þótt þau hefðu gert sér grein fyrir því að það myndi enda með átökum.

„Þrátt fyrir diplómatískar tilraunir okkar gerðu tyrknesk stjórnvöld ekkert” til að stöðva skipalestina, sem var á vegum “hinna róttæku tyrknesku samtaka IHH, sem styðja Hamas,” sagði Netanyahu. ,,Tyrkir álitu það ekki andstætt hagsmunum sínum að til átaka kæmi á milli tyrkneskra aðgerðasinna og Ísraela.”

Hann kvaðst hafa skipað hermönnunum að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að komast hjá því að skaða nokkurn mann, um leið og þeir reyndu að hindra för skipanna til Gaza. Hann ítrekaði einnig þá afstöðu Ísraela að ekki sé verið að brjóta á mannréttindum á Gaza.

„Það er ekkert svelti á Gaza,” sagði hann.

Rannsóknarnefndin gerði svo hlé um miðjan morgun en eftir það fór yfirheyrslan fram fyrir luktum dyrum. Netanyahu er sá fyrsti af þremur æðstu embættismönnum ríkisins sem mun eiðsvarinn bera vitni um atvikið sem varð 31. maí síðastliðinn, þegar sérsveitarmenn réðust um borð í skipalestina. Þá féllu níu aðgerðasinnar og margir fleiri særðust.

Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraelsríkis.
Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraelsríkis. AMMAR AWAD
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert