Grísk yfirvöld tilkynntu í dag að tekist hefði að draga úr fjárlagahallanum í landinu um tæp 40% miðað við stöðuna á síðasta ári, að sögn fjármálaráðherra landsins. Á fyrstu 7 mánuðum ársins 2010 var hallinn um 12.097 milljarðar evra, en á sama tímabili í fyrra var hann 20.050 milljarðar evra.
„Fjárlagahalli ríkisins er að þróast í þá átt að stöðugleika sem spáð hafði verið," segir í yfirlýsingu frá fjármálaráðuneytinu. Ríkisstjórn Grikklands hefur undanfarið tilkynnt um röð niðurskurðaraðgerða sem ráðast verður í til að uppfylla skilyrði um 110 milljarða evru lán frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Grikkir hafa hlaðið upp skuldum sem nema tæplega 300 milljörðum evra og kennir núverandi ríkisstjórn um áratugalangri óstjórn auk hömlulausra stöðuveitinga og launahækkana í stjórnkerfi landsins, sem er gríðarlega umfangsmikið.
Í síðustu viku tilkynnti George Papaconstantionou, fjármálaráðherra Grikklands, að annarri endurskoðun AGS og ESB á lánveitingu til landsins væri lokið og búið að tryggja aðra fyrirgreiðslu lánsins, að upphæð 9 milljörðum evra.