Gaddavír hefur nú verið settur upp umhverfis höfuðstöðvar Jótlandspóstsins í Visby, í nágrenni Árósa, til að vernda skrifstofurnar fyrir árásum hryðjuverkamanna. Girðingin er 2,5 metra há og kílómetralöng og var sett upp samkvæmt ráðleggingu frá dönsku leyniþjónustunni (PET).
5 ár eru liðin síðan Jótlandspósturinn birti umdeildar skopmyndir af Múhameð spámanni, þ.á m. eina þar sem hann var teiknaður með túrban í sprengjulíki. Teikningin vakti gríðarlega reiði og hörð mótmæli í múslímaheiminum og hafa starfsmenn dagblaðsins danska vart getað um frjálst höfuð strokið síðan þrátt fyrir að öryggisgæsla þar sé óvenjumikil miðað við fjölmiðla á Norðurlöndum almennt.
„Við vildum gjarnan geta sleppt því að hafa girðingu, en við erum að fylgja ráðleggingum PET," segir ritstjórinn Joern Mikkelsen. Starfsfólkið hefur fengið fjölmargar líflátshótanir á síðustu árum en Mikkelsen vill ekki gefa upp hvort girðingin sé viðbrögð við nýjum hótunum.