Mjög öflugur jarðskjálfti, 7,6 stig, skók eyjaklasann Vanuatu í Kyrrahafinu í nótt. Skjálftinn var á miklu dýpi, 60 km, en upptök hans voru í 40 km fjarlægð frá aðaleyju Vanuatu, Efate. Hús hristust til og frá á eyjunum og lítil flóðbylgja kom á land. Ekki er hins vegar vitað um meiðsli á fólki né miklar skemmdir á eignum.
Íbúar á eyjunum segja að jarðskjálftinn hafi varað í um 15 sekúndur og tekur fólk skjálftanum með ró sem AFP fréttastofan ræddi við í morgun. Flóðbylgjan sem gekk á land í höfuðborginni Port Vila var 23 sm há. Varað var við því að hún gæti orðið hærri annars staðar.
Vanuatu eyjaklasinn er á milli Fíjí og Ástralíu og norður af Nýja-Sjálandi. Hann er á þekktu skjálftasvæði en í maí skók skjálfti upp á 7,2 stig eyjaklasann.