Ísraelsmenn hótuðu því í morgun að draga sig út úr rannsókn Sameinuðu þjóðanna á árásinni á skipalestina til Gaza í lok maí síðastliðins, þegar níu féllu og enn fleiri særðust. Þeir vilja ekki að nefndin taki einstaka hermenn sem tóku þátt í aðgerðinni á beinið. Í dag verður Ehud Barak, varnarmálaráðherra landsins, yfirheyrður.
Árásin olli hneyksli um allan heim og varð meðal annars til þess að slakað var að hluta til á einangrun Gaza strandarinnar frá umheiminum, en hún hefur verið lokuð í fjögur ár.
Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, bar vitni í gær og sagði þá að það væri þögult samkomulag um að undanskilja hermenn frá rannsókninni. Því hafði Ban Ki-moon, aðalritari SÞ þó neitað.
„Forsætisráðherrann sagði að Ísrael myndi ekki vinna með neinni nefnd sem vildi fá að yfirheyra hermenn,” segir Nir Hefetz, talsmaður forsætisráðherrann í viðtali við útvarpsstöð í eigu hersins í morgun. ,,Áður en Ísrael gaf grænt ljós á að taka þátt í rannsókninni fóru fram samningaviðræður í einrúmi til að tryggja það að þessi rannsóknarnefnd myndi ekki skaða mikilvæga hagsmuni Ísraels,” bætir hann við.
Ban Ki-moon neitaði því í gær að hann hefði gert slíkt samkomulag við Ísraela í einrúmi, áður en rannsóknin hófst. Ísraelar segjast ætla að birta innri rannsókn frá hernum þar sem niðurstaðan hafi verið sú að mistök hafi verið gert “tiltölulega hátt” uppi í goggunarröðinni, en að notkun skotvopna með málmkúlum hafi verið réttlætanleg.
Ísraelar halda því fram að lokunin á Gaza og siglingabannið sem skipalestin braut, séu nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir að Hamas-samtökin flytji eldflaugar og önnur vopn þangað.