Pútín fær það óþvegið frá rússnesku pressunni

Vladimir Pútín.
Vladimir Pútín. RIA Novosti

Reiðin heldur áfram að magnast upp í Rússlandi yfir lélegum viðbrögðum stjórnvalda þar við hitabylgjunni og hinum miklu skógareldum sem hafa geisað að undanförnu. Hefur sjálf Moskva meðal annars verið hulin reykskýi svo dögum skiptir og hundruð dauðsfalla eru rakin beint til þess.

Í rússnesku pressunni er Vladimir Pútín forsætisráðherra jafnvel gagnrýndur harðlega fyrir að hafa engin svör við eldunum, en verða hins vegar sýndarmennskunni að bráð með því að fara sjálfur upp í háloftin á vatnsflutningaflugvél og þykjast sjálfur vinna að því að slökkva eldana.

Pútín hefur, eins og sönnum valdapólitíkusi sæmir, sest við stjórnvölinn á slíkri vél til þess að sýna fram á með táknrænum hætti að stjórnvöld séu með stjórn á ástandinu og að hann sé að takast á við það í hetjulegri baráttu.

„Spunameisturum hans dettur ekkert annað í hug en að setja hann enn einu sinni í stjórnklefann á flugvél,” segir í leiðara viðskiptablaðsins Vedomosti í dag. „Eða láta hann keyra dráttarvél, eða sigla kafbáti, eða strjúka bjarndýri langt norður í landi, eða bjarga tígrisdýrum langt fyrir austan,” segir þar. Leiðarahöfundurinn rifjar þannig upp fyrri almannatengslabrellur Pútíns.

„Spunameistararnir hafa þá þröngu sýn að sjónvarpsmyndir af Pútín að stjórna einhverju tæki sé eilíft töframeðal gegn dvínandi vinsældum hans,” segir blaðið.

Skoðanakannanir hafa að undanförnu sýnt minnkandi vinsældir forsetans Dimitri Medvedev og Pútíns, en enn er óvíst hvaða áhrif eldarnir munu hafa á þær vinsældir.

Blaðið Moskovsky Komsomolets, sem venjulega veitir stjórnvöldum dyggan stuðning, segir í kaldhæðnum tón: „Rússnesk stjórnvöld berjast hetjulega (ef þið trúið því sem þið sjáið í sjónvarpinu) gegn skógareldunum.” Og svo bætir leiðarahöfundur þess við: „Þau eru að berjast við eldana, eftir að hafa leyft þeim að fara af stað í byrjun og magnast upp í náttúruhamfarir.”

Blaðið spyr hvort það sé ekki einmitt í svona aðstæðum sem stjórnkerfið eigi að sanna gildi sitt. „Til hvers erum við annars að fóðra forseta, forsætisráðherra, ráðherra, ríkisstjóra, aðstoðarmenn, stjórnendur innan hersins eða bara herinn yfirleitt?” spyr blaðið.

Vedomosti rekur röð mistaka sem stjórnendur í einstökum sambandsríkjum hafa gert í skógareldunum. Þar á meðal er að borgarstjóri Moskvu fór í frí vegna meðferðar við íþróttameiðslum og aðrir ríkisstjórar sem létu eins og ekkert hefði í skorist til að byrja með og héldu athafnir með íþróttamönnum og einn opnaði gróðurhús fyrir rósaræktun með pompi og prakt.

Medvedev varaði pólitíska andstæðinga sína við því í byrjun vikunnar að reyna að hagnast á þessum harmleik með því að breiða út pólitískar áróður vegna hans. En nú segja blöðin að flugferð Pútíns sýni einmitt að stjórnvöld sjálf séu að beita þeirri aðferð. Nauðsyn þess að forsætisráðherrann sturtaði sjálfur vatni á eldinn hafi verið engin. Aðeins brella frá spunameisturum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert