Nærri 200 Japanar, sem taldir hafa verið á lífi og orðnir aldargamlir eða meira, finnast ekki. Japönsk stjórnvöld hafa undanfarna mánuði kannað sérstaklega hagi þeirra, sem skráðir voru aldargamlir eða meira vegna þess að halda á sérstaklega upp á dag aldraðra í september.
Ýmislegt óvænt hefur komið í ljós við þessa eftirgrennslan. Þar á meðal fundust líkamsleifar manns, Sogens Katos, sem talinn var 111 ára en í ljós kom að maðurinn hafði legið látinn í rúmi sínu í 30 ár.
Þá kom einnig í ljós að kona í Tókýó, sem talin var 113 ára, hefur ekki sést í hálfa öld, að sögn fjölskyldu hennar.
Elsta kona í Japan, samkvæmt opinberri skráningu, er Chiyono Hasegawa,
sem er 113 ára. En margar konur, sem nú er leitað að, væru eldri ef það
er staðfest að þær eru enn á lífi.
Embættismaður í borginni Köbe segir, að ekki sé vitað um 105 af 847 aldargömlum borgarbúum, sem þar eru skráðir. Í borginni Ósaka hefur ekki tekist að hafa upp á 64 af 857 aldargömlum íbúum. Embættismenn komust meðal annars að því, að maður sem skráður var 127 ára gamall, lést í raun árið 1966.
Þessi mál hafa valdið umræðu um, að ættingjar aldraðra séu að leika á japanska tryggingakerfið með því að tilkynna ekki um dauða fólks og hirða síðan ellistyrk þess. Grunur leikur á, að ættingjar Katos hafi leikið þennan leik.