Íranska ríkissjónvarpið hefur sýnt upptöku með játningu konu sem dæmd hefur til að verða grýtt til dauða fyrir framhjáhald og að hafa átt aðild að samsæri um að myrða eiginmann sinn. Í útsendingunni játar hún að hafa átt aðild að morðsamsæri og rekur lögfræðing sinn en hann flúði land áður en hann var handtekinn af stjórnvöldum.
Sakineh Mohammadi Ashtiani, sem er 43 ára gömul tveggja barna móðir, var dæmd til dauða fyrir hjúskaparbrot, átti að grýta hana til bana en var dómnum breytt í hengingu eftir að mannréttindasamtök víða um heim mótmæltu. Hún var síðar dæmd fyrir að hafa átt aðild að samsæri um að myrða eiginmanninn og dæmd til að vera grýtt til bana, samkvæmt fréttum íranskra fjölmiðla.
Samkvæmt frétt BBC er Ashtiani nú á dauðadeild Tabriz fangelsisins. Hún var þurfti að þola 99 vandarhögg árið 2006 fyrir að hafa átt í ólöglegu sambandi við tvo karlmenn. Þann 8. júlí sl. tilkynnti sendiráð Írans í Lundúnum að hún yrði ekki grýtt til bana. Þann 11. júlí tilkynnti dómsstjórinn í máli hennar í Íran að hún yrði grýtt til bana. Tók það fram að hún hafi einnig verið dæmd fyrir að hafa átt aðild að samsæri um að myrða eiginmann sinn. Þann 7. ágúst birti breska dagblaðið Guardian vitnisburð hennar um að hún hefði aldrei verið dæmd fyrir morðsamsæri.
Í útsendingunni á hún að hafa játað að hafa aðstoðað frænda eiginmannsins við að myrða eiginmanninn með því að gefa honum raflost. Í upptökunni gagnrýnir hún lögfræðinginn, Mohammed Mostafaie, sem hefur óskað eftir hæli í Noregi. Eiginkona hans er nú í haldi án ákæru í Evin fangelsinu í Teheran.
„Hvers vegna fór hann með mál mitt í sjónvarpið? Hvers vega smánar hann mig?" spyr hún í útsendingunni.
Einn af lögfræðingum hennar segir að hún hafi verið pyntuð í tvo sólarhringa í fangelsinu til þess að fá hana til að játa.