Svalabrjálæðinu verður að linna

Á Benidorm og Mallorca eru menn mikið í því að …
Á Benidorm og Mallorca eru menn mikið í því að henda sér fram af svölum, sér til skemmtunar og yndisauka. Brynjar Gauti

Yfirvöld á Spáni og Baleareyjum hafa sent út viðvörun til sóldýrkenda sem þangað koma til að skemmta sér, um það það sé hættulegt að stökkva fram af svölum í von um að lenda úti í sundlaug.

Í yfirlýsingu sinni segja þau að þetta „svalabrjálæði” hafi kostað fjögur mannslíf í sumar og skilið marga ferðamenn eftir alvarlega slasaða. Þessi mikla slysaalda, ef slys skyldi kalla, hefur orðið þegar fólk hefur í stórauknum mæli farið að klifra upp byggingar utanverðar, stökkva á milli svala utan á húsum og sem fyrr segir, að henda sé þaðan niður í sundlaugar.

Greint er frá þessu á vef breska blaðsins The Guardian.

Sjúkraflutningamenn á Mallorca og Ibiza þurftu eitt sinn að ferja þrjár manneskjur á sjúkrahús á innan við tólf klukkutímum, eftir að fólkið hafði reynt svona lagað. Sá sem var mest slasaður var tvítugur Breti, sem féll af þriðju hæð á hótelinu Platja d’en Bossa. Tveir átján ára gamlir men voru líka fluttir á spítala eftir tvö aðskilin atvik í Magaluf, á Mallorca, sama dag.

Talið er að sú þreföldun sem orðið hefur í svona slysum tengist ekki síst dálæti ungra manna á myndböndum sem finna megi á internetinu, undir heitinu „balconing” þar sem fólk leikur svona listir af fífldirfsku.

Yfirleitt eru þeir sem reyna svona lagað drukknir eða undir áhrifum fíkniefna. „Þetta er orðin algjör plága,” segir hótelstarfsmaður einn. „Ef maður nær þeim, þá segja þeir að þeir hafi týnt lyklinum að herberginu sínu. En þeir eru í rauninni að reyna að komast inn í herbergið hjá einhverri stelpu, eða halda að þeir geti hent sér út í sundlaugina þaðan sem þeir eru.”

Balear-eyjarnar hafa á sér mikið orðspor fyrir að vera partístaðir en nú er verið að reyna að hemja skemmtanalífið þar með strangari reglum á hótelum. Könnun á meðal breskra og þýskra ungmenna á eyjunum í fyrra sýndi fram á að 35% þeirra voru drukkin að minnsta kosti annað hvert kvöld og 9% þeirra höfðu verið áreitt kynferðislega. Fjórðungur þeirra sem ekki voru í sambandi höfðu stundað kynlíf á eyjunum og stór hluti þeirra ekki notað getnaðarvarnir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert