Von á 15.000 skjölum í viðbót

Julian Assange segir Wikileaks hvergi hvika
Julian Assange segir Wikileaks hvergi hvika Reuters

Stofnandi vefsíðunnar WikiLeaks, Julian Assange, segir að 15.000 leyniskjöl frá bandaríska hernum verði birt á vefsíðunni, til viðbótar við rúmlega 76 þúsund skjöl sem birtust þar fyrr í sumar.

Assange sagði aðstandendur síðunnar hafa yfirfarið 7.000 skýrslur af þessum 15.000 en vildi ekki gefa upp hvenær þær yrðu birtar.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon, hefur krafist þess að WikiLeaks skili leyniskjölunum sem þegar hafa birst og hætti við birtingu þess efnis sem óbirt er.

„Þrátt fyrir endurteknar beiðnir um aðstoð hefur hvorki Hvíta húsið né Pentagon veitt okkur neina aðstoð,“ sagði Assange í ávarpi gegnum vefmyndavél við áheyrendur í London.

Aðspurður hvort WikiLeaks ætlaði að halda birtingunni til streitu svaraði Assange: „Auðvitað.“

Bandaríska varnarmálaráðuneytið segir, að þessi skjöl kunni að valda enn meira tjóni en þau skjöl, sem WikiLeaks hefur þegar birt. 

WikiLeaks birti í júlí tugi þúsunda hernaðarskýrslna þar sem fjallað er um starfsemi bandaríska hersins í Afganistan á tímabilinu frá 2004 til 2009. Bandarísk stjórnvöld hafa gagnrýnt WikiLeaks harðlega og segja að með því að birta skjölin hafi vefurinn sett líf hermanna og óbreyttra Afgana í hættu.

Í dag sendu samtökin Blaðamenn án landamæra frá sér yfirlýsingu þar sem forsvarsmenn WikiLeaks eru harðlega gagnrýndir fyrir kæruleysi. Jean-Francois Julliard, framkvæmdastjóri samtakanna, sagði að WikiLeaks hefði sýnt af sér ótrúlegt ábyrgðarleysi með því að birta skjölin á netinu.

„WikiLeaks hefur áður unnið þarft verk með því að birta upplýsingar... sem flettu ofan af alvarlegum mannréttindabrotum sem ríkisstjórn (Georges W.) Bush framdi í nafni stríðsins gegn hryðjuverkum," sagði Julliard í opnu bréfi á vef samtakanna. „En með því að bera kennsl á hundruð manna, sem unnu með bandalagshernum í Afganistan er stórhættulegt."  

WikiLeaks sagði á Twittervef sínum, að yfirlýsingu Blaðamanna á landamæra væri heimskuleg og byggðist á ummælum, sem aldrei hefðu verið viðhöfð. 

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur hafið víðtæka rannsókn á því hvernig skjölin komust í hendur forsvarsmanna WikiLeaks. Um 100 manna starfshópur á vegum ráðuneytisins leggur nú mat á það tjón, sem birting skjalanna hefur valdið og hefur einnig varað þá Afgana, sem hægt er að bera kennsl á í skjölunum, við.

Talsmenn talibana í Afganistan hafa sagt að þeir muni nota skjölin til að elta uppi fólk, sem hafa verið samvinnuþýðir við bandaríska herliðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert