Bandaríkin hjálpa Rússlandi

Reuters

Bandaríkin hyggjast aðstoða Rússland vegna skógareldanna og hitabylgjunnar sem valdið hefur hamförum þar í landi undanfarið.

„Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hafði samband við forseta Rússlands, Dmitry Medvedev, símleiðis í gær og tilkynnti að Bandaríkjastjórn myndi senda slökkvibúnað og önnur hjálpartæki“, segir í tilkynningu frá Hvíta húsinu.

Þannig eru Bandaríkin að bregðast við hjálparbeiðni Rússlands, um aukinn búnað til að vinna bug á skógareldunum þar í landi.

Í aðstoð Bandaríkjanna felst eingöngu búnaður en ekki mannskapur.

Þá hefur Kaliforníuríki sent Rússum hlífðarfatnað handa þeim sem berjast við eldana.

„Bandaríska þjóðin stendur að baki rússnesku þjóðinni á þessum erfiðu tímum.“ 

Áður hafa Bandaríkin styrkt Alþjóðlega Rauða krossinn um 50.000 dali til hjálparstarfs í Rússlandi en um 50.000 manns berjast nú við skógareldana þar.

Sambandið milli Washington og Moskvu hefur styrkst verulega eftir að Obama tók við forsetaembætti í Bandaríkjunum. 

Í apríl undirrituðu forsetarnir tveir samkomulag um sameiginlega áætlun til að draga úr kjarnorkuvopnabúnaði landanna.

Þá heimsótti Medvedev Hvíta húsið í júní sem þótti sérstakt merki um aukna vináttu, en handtökur tíu rússneskra njósnara í Bandaríkjunum nokkrum dögum síðar komu í veg fyrir of mikla bjartsýni um samskipti þjóðanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert