Enn loga skógar- og kjarreldar víða í Rússlandi og Portúgal. Þorp og skóglendi hafa orðið eldinum að bráð og tjónið er gífurlegt. Heilu sveitirnar eru í hættu í Portúgal og eru yfir sex hundruð slökkviliðsmenn að berjast við að halda eldinum í skefjum.
Bændur nota dráttarvélar sem slökkviliðsbíla og litlar flugvélar fljúga yfir og varpa vatnssprengjum.
Ástandið er svipað í Rússlandi en ekki hafa kviknað viðlíka eldar þar í landi í tæp fjörtíu ár. Skógar Rússlands eru þeir stærstu í heimi, að flatarmáli eru þeir álíka víðfeðmir og Kanada. Fólk í sveitum Rússlands og vistfræðingar er ósátt við hversu hægt stjórnvöld hafa brugðist við og eins hversu illa undirbúin þau eru þegar slíkar hamfarir ríða yfir.