3,5 milljónir barna í hættu

Allt að 3,5 milljónir pakistanskra barna eiga á hættu að fá banvæna sjúkdóma vegna flóðanna þar. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hvatti í gærkvöldi alþjóðasamfélagið til að koma Pakistan til aðstoðar. 

Maurizio Giuliano, talsmaður mannúðarskrifstofu SÞ. sagði að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, væri einnig að undirbúa að aðstoða alllt að 140 þúsundir manna á flóðasvæðunum ef kólera kemur þar upp. Engin staðfest tilfelli hafa hins vegar verið skráð enn.

Giugliano sagði, að allt að 3,5 milljónir barna væru í mikilli hættu vegna sjúkdóma, sem berast með vatni, svo sem niðurgangs og blóðkreppusóttar. Einnig væri ástæða til að óttast taugaveiki og lifrarbólgu.

Sagði hann að drykkjarvatn væri orðið mjög mengað á svæðinu og mikill skortur á drykkjarvatni.

Sami Abdul Malik, talsmaður Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sagði að 6 milljónir barna væru á flóðasvæðunum. Hann sagði að börn væru afar viðkvæm fyrir svona ástandi, þau svali þorsta sínum án þess að huga að vatninu og kunni því að fá niðurgang, kóleru, malaríu og aðra sjúkdóma. 

Ban Ki-moon flaug í gær með Ali Zardari, forseta Pakistans, til Punjabhéraðs í Pakistan, þar sem flóðin eru mest, og sagði á blaðamannafundi í gærkvöldi að ástandið á flóðasvæðunum væri hræðilegt.

„Margir hafa misst fjölskyldur og vini. Margir óttast að börn þeirra og ástvinir muni ekki lifa þetta af." 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert