Íranir hyggjast hefja smíði þriðju verksmiðjunnar til að auðga úran snemma á næsta ári, að sögn þarlends embættismanns. Með því hunsa Íranir heimsveldin sem hafa beitt þá refsiaðgerðum vegna kjarnorkuáætlunar sinnar.
Vefsíða íranska sjónvarpsins vitnaði í Ali Akbar Salehi, yfirmann kjarnorkumála í Íran, á sunnudag sem sagði að leitinni að staðsetningu fyrir tíu nýjar verksmiðjur til auðgunar sé lokið og að „bygging einnar þessara verksmiðja muni byrja í lok yfirstandandi árs (að írönsku tímatali í mars næstkomandi) eða í byrjun næsta árs.“
Íranir vinna nú þegar að auðgun úrans í helstu verksmiðju sinni þeirrar gerðar í borginni Natanz. Unnið er að byggingu annarrar slíkrar verksmiðju inni í fjalli í Fordo, suðvestur af Teheran.