Nærri því einn af hverjum fimm táningum í Bandaríkjunum eða um 6,5 milljónir unglinga reyndust hafa skerta heyrn árið 2006, að því er fram kemur í riti Bandaríska læknafélagsins. Um er að ræða 30% aukningu á tíðni heyrnarskemmda miðað við rannsóknaniðurstöður árið 1994.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa komið mjög á óvart ekki síst þar sem nú er mun meira um það en áður að bólusett sé við ýmsum sjúkdómum sem geta skaðað heyrn.
Fram kom að í flestum tilfellum væri um tiltölulega litla skerðingu að ræða. Hún er mest áberandi hjá unglingum i fjölskyldum sem eru undir fátæktarmörkum og tíðnin er lægri hjá stúlkum en drengjum. Engu er slegið föstu um orsök þessarar þróunar en sagt að rannsaka þurfi frekar áhrif mikils hávaða á heyrnina.