Grikkir hafa nú uppfyllt öll skilyrði til að fá aðra útborgun af 110 milljarða evra lánapakka frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, eftir að hafa náð miklum árangri í endurgerð fjárhagsáætlunar landsins. Þetta segir í tilkynningu frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Lánaáætlun ESB og AGS var ákveðin í maí síðastliðnum og nær til næstu þriggja ára. Grikkir voru á móti krafðir um gríðarlegan niðurskurð til að rétta af skuldahallann. Um 20 milljarðar evra voru greiddir út í fyrstu afborgun en næsta greiðsla nemur um 9 milljörðum og er búist við því að fjármálaráðherrar á evrusvæðinu samþykki útborgun hennar á fundi þann 7. september næstkomandi, að sögn framkvæmdastjórnarinnar.
Olli Rehn, sem fer með efnahagsmál í framkvæmdastjórn ESB, segir að Grikkir hafi náð aðdáunarverðrum árangri við að þétta fjárhaginn á fyrri hluta árs 2010. Engu að síður bíði þeirra enn miklar áskoranir.