Bregðast verður við á undan hryðjuverkamönnum

Alþjóðasamfélagið verður að bregðast snöggt við ef koma á í veg fyrir að skæruliðar misnoti hörmulegar afleiðingar flóðanna í Pakistan til að skapa félagslegan óróa. Þetta sögðu bæði forseti og utanríkisráðherra Pakistan sem og bandaríski öldungardeildarþingmaðurinn John Kerry á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag.

Asif Ali Zardari forseti Pakistan og John Kerry komu fram á sameiginlegum blaðamannafundi í New York í dag þar sem þeir biðluðu til umheimsins að aðstoða pakistönsku þjóðina sem skjótast „til að forðast að reiði þeirra og óþolinmæði sjóði up úr eða að fólk misnoti reiði þeirra".

Hátt í 5 milljónir Pakistana eru enn heimilislausar og án skjóls vegna þeirrar gríðarlegu eyðileggingar sem urðu í verstu flóðum sem gengið hafa yfir í sögu landsins. Kerry er æðsti ráðamaður Bandaríkjanna sem heimsótt hefur Pakistan síðan flóðin gengu yfir.  Sameinuðu þjóðirnar telja að alls hafi líf um 20 milljóna manna orðið fyrir áhrifum vegna flóðanna og um fimmtungur landsins sé enn hulinn vatni, sem auki hættuna á kólerufaraldri, taugaveiki og lifrarbólgu.  

Kerry og Zardari sögðu frá því á fundinum í dag að þeir hefðu upplifað mikla reiði meðal fólksins í landinu og óánægju með hægagang í björgunaraðgerðum. „Ekkert okkar vill sjá þetta neyðarástand gefa tækifæri eða afsökun fyrir fólk sem vill misnota ógæfu annarra í pólitískum eða hugmyndafræðilegum tilgangi," sagði Kerry. „Það er því mikilvægt að við vinnum hörðum höndum að því að útvega alla nauðsynlega hjálp."

167 milljónir manna búa í kjarnorkuríkinu Pakistan sem er efst og forgangslista utanríkisþjónustu Bandaríkjanna vegna yfirvofandi ógnar íslamskra öfgamanna.

„Það eru 20 milljónir manna án heimilis, 20 milljónir manna á götum úti, 20 milljónir manna hungraðar," sagði Zardari. „Við gefum þeim allt sem við höfum, en það er möguleiki að neikvæð öfl muni misnota þessar aðstæður. Þess vegna sendi ég út neyðarboð. Öll þessi eyðilegging gefur þeim styrk sem vilja ekki samfélagslegan stöðugleika."

43 milljarða dala tjón

Shah Mehmood Qureshi, utanríkisráðherra Pakistans, sagði á sérstökum fundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í kvöld, að tjón af völdum flóðanna í landinu næmi nú um 43 milljörðum dala, nærri 5200 milljörðum króna. Sagði ráðherrann að hryðjuverkamenn mættu ekki komast upp með að hagnýta sér þessar hörmungar. 

„Það verður að bregðast við hinu gríðarlega umróti og efnahagslegu tjóni, sem milljónir Pakistana hafa orðið fyrir," sagði Qureshi. „Við megum ekki gefa hryðjuverkamönnum tækifæri til að hagnýta sér þetta ástand."  

Sagði Qureshi, að stjórnvöld þurfi að bregðast við flóðunum á sama tíma og þau berjast við öfgahópa og hryðjuverkamenn.  

Mikil neyð ríkir í Pakistan vegna flóðanna.
Mikil neyð ríkir í Pakistan vegna flóðanna. FAISAL MAHMOOD
John Kerry.
John Kerry. AP
Asif Ali Zardari forseti Pakistans.
Asif Ali Zardari forseti Pakistans. NADEEM SOOMRO
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert