Kaþólska kirkjan í Bandaríkjunum tekst nú á við nýtt barnaníðingsmál eftir að sjö fullorðnir Kaliforníubúar lögðu fram kæru á hendur presti vegna brota sem teygja sig yfir 3 áratugi. Því er jafnframt haldið fram að kaþólska kirkjan hafi vitað af ofbeldisglæpunum en ekkert gert til að hindra þá.
„Kaþólskir biskupar í Bandaríkjunum sem og Vatíkanið hafa lengi auðveldað framgöngu kynferðisglæpa gegn börnum með því að taka þátt í því að þagga niður og vernda þekkta kynferðisbrotamenn í prestastétt," segir í kærunni. „Þetta hafa biskupar og æðstuprestar kaþólsku kirkjunnar gert til að koma í veg fyrir að prestar verði sóttir til saka og þar með til að forðast hneykslismál."
Þá segja kærendurnir að kirkjunnar menn hafi „lagt kaþólskar fjölskyldur og börn í hendur þekktra barnaníðinga, í trausti þess að virðing almennings fyrir kirkjunni dygði til þess að hvers kyns kynferðisbrot presta lægju áfram í þagnargildi." Kærendurnir, sem eru 6 konur og 1 karl, segjast hafa verið misnotuð af prestinum Stephen Kiesle á árunum 1972 á meðan þau voru börn og unglingar.
Rómversk kaþólska kirkjan í Bandaríkjunum hefur margsinnis verið sökuð um að loka augunum gagnvart kynferðislegri misnotkun gegn börnum af hendi kirkjunnar manna. Árið 2008 varði kirkjan 436 bandaríkjadölum í dómsmál vegna kynferðisbrota presta.