Frönsk stjórnvöld hófu í dag brottvísun sígauna með skipulögðum hætti úr landinu. Um sjö hundruð sígaunar verða fluttir til síns „heimalands" næstu daga. Eru flestir þeirra á leið til Búlgaríu og Rúmeníu. Á sama tíma eykst gagnrýni á aðgerðir gegn sígaunum sem Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, boðaði í síðasta mánuði.
Fyrstu 79 sígaunarnir fara með síðdegisflugi til Búkarest, höfuðborgar Rúmeníu. Það fólk fer með fúsum og frjálsum vilja. Flogið verður með 132 til Timisoara, í vesturhluta Rúmeníu, og Búkarest á morgun. 160 verða síðan sendir þann 26. ágúst. Hver þeirra fær 300 evrur, rúmar 46 þúsund krónur, við brottför en börn fá 100 evrur hvert.
Líkt og fram hefur komið þá boðaði Sarkozy í síðasta mánuði aðgerðir sem miða að því að rekja úr landi sígauna og aðra flakkara frá öðrum löndum sem eru án fastrar búsetu. Eru þeir sem koma frá öðrum ríkjum en þeim sem tilheyra evrópska efnahagssvæðinu sendir til síns heima. Þeir sem eru hins vegar íbúar ríkja EES eru ekki sendir heim nema þeir hafi komist í kast við lögin. Það skýrist af ákvæði í samningnum um EES um frjálst flæði fólks milli landa. Þar að leiðandi eru Íslendingar, sem einhvern tíma hafa komist í kast við lögin, ekki sendir heim. Jafnframt boðaði Sarkozy það að ólöglegar búðir slíkra flakkara skyldu rifnar. Þegar er búið að eyða nokkur hundruð slíkum búðum víðs vegar um Frakkland.
Meðal þess sem hefur verið gagnrýnt er að þetta minni helst á aðfarir Vichy-stjórnarinnar sem var við völd á tímum seinni heimstyrjaldarinnar en hún var studd dyggilega af nasistum. Innanríkisráðherra Frakklands vísar því á bug og segir stjórnvöld skoða hvert mál fyrir sig.
Utanríkisráðherra Rúmeníu, Teodor Baconschi, hefur hins vegar lýst því yfir að hann hafi áhyggjur af því að þetta geti valdið útlendingahatri á sama tíma og efnahagskreppa ríki.
Í næstu viku mun innanríkisráðherra Frakklands, Brice Hortefeux, eiga fund með háttsettum einstaklingum úr stjórnkerfi Rúmeníu, Meðal annars ráðherra sem fer með málefni sígauna og annarra minnihlutahópa.
Un tíu þúsund sígaunar voru sendir til Búlgaríu og Rúmeníu í fyrra en þetta er fyrsta markvissa brottvísunin frá því Sarkozy tilkynnti um hertar aðgerðir gegn flökkurum og öðrum útlendingum. Talið er að um fimmtán þúsund sígaunar séu í Frakklandi.