Forseti sambandsstjórnar Sviss, Doris Leuthard, lýsti því yfir á blaðamannafundi í morgun að stjórn hennar hefði komist að þeirri niðurstöðu að tvíhliða samningar landsins við Evrópusambandið (ESB) væri sú leið í samskiptum við sambandið sem hentaði hagsmunum þess best.
Vangaveltur hafa verið uppi um að Sviss yrði hugsanlega aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) en Leuthard tók af allan vafa um að slíkt væri ekki á dagskrá. Frá þessu er greint á norska fréttavefnum ABC Nyheter.
Svisslendingar eru aðilar að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) ásamt Íslandi, Noregi og Liechtenstein. Ólíkt löndunum þremur er Sviss hins vegar ekki aðili að EES-samningnum en svissneskir kjósendur höfnuðu aðild að honum í þjóðaratkvæði þegar verið var að semja um hann fyrir tæpum tveimur áratugum. Þess í stað hafa Svisslendingar gert um 120 tvíhliða samninga við ESB.