Tveir ótengdir ofurstórir jarðskjálftar sem brustu á með fárra mínútna millibili ollu hafnarbylgju sem urðu fólki að aldurtila á Suðurhafseyjum í fyrra. Greint er frá rannsókn á upptökum hafnarbylgjunnar í vísindaritinu Nature.
Í fyrstu var talið að sterkur skjálfti upp á 8,1 stig hafi valdið hafnarbylgjunni 29. september 2009 en um 200 manns fórust af hennar völdum á eyjunum Samoa, Amerísku Samoa og Tonga.
Tveir hópar vísindamanna sem beittu ólíkum aðferðum og nálgunum hafa nú komist að því að hamfarabylgjan átti upptök í tveimur risastórum skjálftum sem brustu á með fárra mínútna millibili. Það vekur sérstaka athygli að skjálftarnir urðu á sitt hvorri brotalínunni og brustu á með ólíkum hætti.
Þótt vísindahóparnir séu ekki sammála um hvor skjálftinn hafi komið fyrst er ljóst að sú uppgötvun að skjálftarnir hafi verið tveir leysir ráðgátu sem vafist hefur fyrir mönnum frá því hamfarirnar urðu.
Meðal þess sem vafðist fyrir vísindamönnum var að hafnarbylgjurnar komu ekki að landi á þeim tímum sem spáð hafði verið. Einnig voru upptök eftirskjálftanna ekki í kringum upptök aðalskjálftans, eins og venjulegt er. Það þótti benda til þess að atburðurinn væri flóknari en í fyrstu sýndist.