Svonefndur ríkjakvartett, sem látið hefur friðarviðræður fyrir botni Miðjarðarhafs til sín taka, segir í yfirlýsingu að hægt sé að ljúka viðræðum um stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna, á einu ári.
Í yfirlýsingunni lýsir kvartettinn, Evrópusambandið, Sameinuðu þjóðirnar, Bandaríkin og Rússland, yfir eindregnum stuðningi við beinar friðarviðræður Ísraelsmanna og Palestínumanna.
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýsti því formlega yfir nú síðdegis að bandarísk stjórnvöld hefðu boðið leiðtogum Ísraelsmanna og Palestínumanna til viðræðna í Washington 2. september með það að markmiði að ná samningum á einu ári.
Hefur Hosni Mubarak, forseta Egyptalands, og Abdullah Jórdaníukonungi, einnig verið boðið til fundarins.