„Sölumaður dauðans“ framseldur til Bandaríkjanna

Áfrýjunarréttur í Tælandi úrskurðaði í dag að meintur vopnasmyglari, Rússinn Viktor Bout, verði framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann verður ákærður fyrir hryðjuverk. Bout, sem áður var flugmaður í her Sovétríkjanna, hefur hlotið viðurnefnið "sölumaður dauðans" en talið er að hann hafi smyglað vopnum til uppreisnarmanna kólumbísku samtakanna FARC.

Bout segist sjálfur saklaus af ásökununum, hann hafi rekið fullkomlega löglegt farmflug. Bout situr í fangelsi í Tælandi en Bandarísk yfirvöld kröfðust þess að hann yrði framseldur.  Eiginkona hans var stödd í réttarsalnum þegar dómurinn var felldur og kvaddi hann með kossi þegar hann var leiddur á brott. Hún segist þess fullviss að tælenskir dómstólar hafi orðið fyrir miklum þrýstingi frá bandarískum yfirvöldum.

Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, segir að Rússar harmi framsalsdóminn og að þarlend yfirvöld muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að Bout komist heim til Rússlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert