Stofnandi WikiLeaks sakaður um nauðgun

Julian Assange stofnandi WikiLeaks.
Julian Assange stofnandi WikiLeaks. ANDREW WINNING

Stofnandi WikiLeaks, hinn ástralski Julian Assange, er nú eftirlýstur í Svíþjóð, meðal annars vegna ásakana um nauðgun.  Samkvæmt talsmanni saksóknara er Assange grunaður um tvo glæpi, annars vegar nauðgun. Hann vildi ekki gefa uppi hver hinn glæpurinn væri né hvort gefin hefði verið út alþjóðleg handtökuskipun vegna málsins.

Samkvæmt sænska miðlinum Expressen er Assange grunaður um líkamsárás á hendur annarri konu, auk nauðgunarinnar. Assange var í Svíþjóð í síðustu viku þar sem hann tilkynnti á fréttamannafundi að WikiLeaks myndi eftir nokkrar vikur birta síðustu 15.000 leyniskjólin sem lekið var frá bandaríkjaher.

Afp hefur eftir Kristni Hrafnssyni fréttamanni, sem vann með Assange að birtingu myndbanda frá Írak, að ásakanirnar á hendur honum séu falskar. „Hann vissi ekki af þessum ásökunum fyrr en þær birtust í hægri sinnaða slúðurblaðinu Expressen í morgun,“ segir Kristinn. „Það eru sterk öfl sem vilja skaða WikiLeaks.“

Kristinn segir að Assange sé enn staddur í Svíþjóð og ætli að gefa sig fram við lögreglu innan skamms. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert