Handtökuskipun úr Pentagon?

Julian Assange grunar að Bandaríkjamenn standi á bakvið tilhæfulausar ásakanir …
Julian Assange grunar að Bandaríkjamenn standi á bakvið tilhæfulausar ásakanir á hann um nauðgun í Svíþjóð. Reuters

Stofnandi Wikileaks síðunnar, Julian Assange, heldur því fram í samtali við sænska Aftonbladet að Pentagon, bandaríska varnarmálaráðuneytið, geti verið á bakvið ásakanir á hendur honum um nauðgun í Svíþjóð. Handtökuskipun og ákærur á hendur Assange voru dregnar til baka í Svíþjóð í gær en málið hefur vakið heimsathygli.

Handtökuskipunin hefur verið sett í samhengi við þær upplýsingar sem settar hafa verið inn á Wikileaks um árásir Bandaríkjamanna í Afghanistan. Í viðtalinu segir Assange að eftir þetta hafi hann fengið fjölda hótana, m.a. frá Pentagon, um að öllum tiltækum ráðum verði beitt til að gera útaf við vefsíðuna. Sérstaklega hafi því verið hótað að bendla hann við kynferðisofbeldi.

Assange hefur vísað á bug öllum ásökunum um að hann hafi verið viðriðinn nauðgun, en tvær ónafngreindar konur eiga að hafa haldið þessu fram án þess að hafa lagt fram kæru. Það var hins vegar sænska lögreglan sem á að hafa ákveðið að gefa út handtökuskipun. Sænska saksóknaraembættið segir að rannsókn haldi áfram á málinu þó að handtökuskipun á Assange hafi verið dregin til baka.

Telur Assange að andstæðingar hans muni halda áfram hvað þeir geta að koma óorði á sig og Wikileaks síðuna. Í viðtalinu við Aftonbladet boðar hann birtingu enn fleiri skjala á síðunni um stríðið í Afghanistan.

Assange var á ferðinni í Svíþjóð fyrr í þessum mánuði, þar sem hann hélt blaðamannafund um birtingu skjala um stríðið í Afghanistan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert