Íranir styrkja öfgahópa í Írak fjárhagslega af ótta við afleiðingar þess að hafa traust lýðræðisríki sem nágranna. Þetta fullyrðir yfirmaður Bandaríkjahers í Írak, herforinginn Ray Odierno.
„Ég held að þeir vilji ekki sjá Írak breytast í traust lýðræðisríki," sagði Odierno í viðtali við CNN í dag. „Þeir vilja heldur sjá stoðir þess veikjast svo að Írakar valdi Írönum ekki vandræðum í framíðinni." Odierno hélt því jafnframt fram að Íran styrki og þjálfi öfgamenn meðal sjía-múslíma í Írak til þess að efla markvisst getu skæruliðaherjanna þar í landi.
Að hluta til væri það gert til að standa fyrir árásum á Bandaríkjaher, en líka til að „tryggja það að allir skilji að þeir geti líka haft sín áhrif í landinu," sagði Odierno. Sjö ár eru liðin síðan Bandaríkjamenn réðust inn í Írak og steyptu Saddam Hussein af stóli. Enn ríkir þar mikil óöld, nú í vikunni létust sem dæmi 59 manns á herskráningarstöð í Baghdad vegna sjálfsmorðssprengju.