Til mótmæla kom á götum New York borgar í dag. Hundruð manna fylktu liði um götur Manhattan til að mótmæla byggingu mosku múslíma nálægt þeim stað sem World Trade Center stóð, Tvíburaturnarnir, sem hryðjuverkamenn flugu á fyrir tæpum níu árum.
Mótmælendur héldu á spjöldum máli sínu til stuðnings en margir úr hópnum eru aðstandendur þeirra sem létust í árásunum 11. september árið 2001. Finnst þeim ekki viðeigandi að miðstöð múslíma verði reist svo nálægt vettvangi hinna hörmulegu atburða.
„Ég trúi því ekki að allir múslímar séu hryðjuverkamenn en ég veit þó að allir þeir hryðjuverkamenn sem voru um borð í flugvélunum sem drápu bróður minn voru múslímar. Ég tel það ekki viðeigandi eða siðferðislega réttlætanlegt að setja hér upp mosku þar sem bróðir minn var drepinn," segir einn mótmælenda við fréttamann Reuters.
Stuðningsmenn moskunnar létu einnig í sér heyra á götum úti og sá lögreglan til þess að hóparnir komust ekki í tæri við hvorn annan. Bentu þeir á rétt þeirra til trúfrelsis og nauðsyn þess að auka umburðarlyndi Bandaríkjamanna gagnvart múslímum.
Einn úr hópi múslíma sagði enga ástæðu til að óttast þá trúbræður sína og systur sem myndu sækja moskuna. „Við erum bara venjulegir Bandaríkjamenn," sagði hann við Reuters.
Þrjár vikur eru þar til að níu ár verða liðin frá hryðjuverkaárásunum og talið að deilur um moskuna haldi áfram haldi áfram í Bandaríkjunum. Barack Obama hefur stutt við rétt múslíma til að reisa miðstöð við Ground Zero, þar sem Tvíburaturnarnir stóðu, en hefur forðast að tjá sig um hvort skynsamlegt sé að láta verða af framkvæmdunum.