Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels sagðist í dag vilja „koma efasemdamönnum á óvart" með því að ná samkomulagi við Palestínumenn í gegnum endurýjaðar friðarviðræður með milligöngu Bandaríkjanna í næsta mánuði.
„Ég veit að það ríkja miklar efasemdir eftir þessi 17 ár sem liðin eru síðan friðarviðræðurnar hófust á sínum tíma i Osló," sagði Netanyahu við blaðamenn í dag. „Við vonumst til að geta komið gagnrýnendum og efasemdarmönnum á óvart en til þess að geta það þurfum við að finna raunverulega samstöðu frá Palestínumönnum. Það er mögulegt að ná árangri með útrétta sáttarhönd, en aðeins að því gefnu að einhver frá hinni hliðinni rétti fram höndina á móti."
Netanyahu og forseti Palestínu, Mahmud Abbas, samþykktu boð Bandaríkjanna um að hefja friðarviðræður á nýjan leik í Washington þann 2. september eftir 20 mánaða hlé. Palestínumenn setja fram þá kröfu að viðræðurnar leiði til stofnunar sjálfstæðs palestínsks ríkis og vilja að Ísraelsmenn hætti framkvæmdum á landnemabyggðunum áður en viðræður hefjast. Netanyahu tekur hinsvegar alveg fyrir það að sett séu skilyrði fyrir viðræðunum.