Saksóknari ver handtökuskipun

Julian Assange hélt fyrirlestur í Stokkhólmi 14. ágúst.
Julian Assange hélt fyrirlestur í Stokkhólmi 14. ágúst. SCANPIX SWEDEN

Önnur kvennanna tveggja sem sakað hafa Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, um kynferðisbrot segir hann hafa áreitt sig og þess vegna hafi hún ákveðið að styðja þá sem kærði hann fyrir nauðgun.  Konurnar þekktust ekki áður, en sú sem sakar Assange um kynferðislega áreitni segist hafa hitt hina konuna á fyrirlestri hjá Assange.

Sú hafi nálgast hana og sagt frá nauðguninni, og þá hafi hún sjálf samþykkt að fara með henni til lögreglunnar með sína frásögn. „Ég trúði henni strax vegna þess að ég hafði svipaða reynslu af honum sjálf," sagði hún. „Hin konan vildi kæra nauðgun og ég gaf skýrslu til að renna styrkari stoðum undir hennar ásakanir og styðja hana þannig."

Talsmaður sænska saksóknarans segir að nauðgunarkæran hafi verið felld niður eftir að nýjar upplýsingar bárust, en handtökuskipunin hafi verið réttlætanleg miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir á þeim tíma. Kæran fyrir kynferðislega áreitni er enn til rannsóknar, en þær ásakanir eru ekki nóg alvarlegar samkvæmt sænskum lögum til að kalla á handtökuskipan. 

Eva Finné, aðalsaksóknari í Stokkhólmi, sagði í dag að enginn grunur lægi lengur á því að Assange hefði gerst sekur um nauðgun. „Ég tel ekki að það sé nein ástæða til þess að gruna hann um nauðgun." Hjalebo Kjellstad, saksóknarinn sem gaf út ákæruna, segir hins vegar að upplýsingarnar sem hún hafi fengið á sínum tíma hafi verið nægilega sannfærandi til að réttlæta ákvörðun hennar.  „Ég fékk upplýsingar frá lögreglunni sem ég taldi nægar til að gefa út handtökuskipan. Ég sé ekki á eftir þeirri ákvörðun að neinu leyti."

Sjálfur vísar Assange ásökununum á bug og segir þær runnar undan rifjum varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, Pentagon, sem liður ófrægingarherferð til að sverta mannorð hans. Hann hefur sagt frá því í viðtölum við sænska fjölmiðla að hann hafi allt eins átt von á því fyrirfram að vera orðaður við kynferðisbrot,  vegna þess að honum hafi verið hótað ýmsu vegna umdeildra birtinga hans á leyniskjölum Bandaríkjahers frá Afganistan. „Ég veit ekki hver stendur á bak við þetta en ég hafði verið varaður við því að Pentagon ætlaði sér að grípa til óþverrabragða til að spilla þessu fyrir okkur. Ég hafði líka verið varaður við því að ég yrði leiddur í gildru tengda kynferðisbrotum."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert