Þýskur saksóknari gaf í dag út ákæru á hendur kaþólskum presti sem sakaður er um að hafa nauðgað stúlku undir lögaldri. Ákæran er gefin út eftir ábendingu sem barst frá sérstakri nefnd sem sett var til að bregðast við fjölgun kynferðisbrotamála sem komið hafa upp innan kaþólsku kirkjunnar í Þýskalandi.
Presturinn, sem er fimmtugur, er grunaður um að hafa nauðgað stúlkunni reglulega á þriggja ára tímabili frá því hún var 14 ára gömul árið 1990. Hann er sagður hafa hótað henni að hún „kæmist aldrei til himna" ef hún þýddist hann ekki, að sögn talsmanns saksóknaraembættisins.
Talsmenn kaþólsku kirkjunnar í Þýskalandi segja að prestinum hafi verið vikið frá störfum í mars síðastliðnum, þegar konan setti ásakanirnar fram og rannsókn var sett af stað. Kirkjan vísaði málinu til saksóknara þegar presturinn neitaði að gefa sig sjálfviljugur fram til lögreglu.
Hvert hneykslismálið hefur rekið annað í Þýskalandi síðustu mánuði þegar þar sem æ fleiri ásakanir um kynferðisbrot á börnum eru sett fram gegn kirkjunnar mönnum, í flestum tilfellum kaþólsku kirkjunni. Staða kirkjunnar í Þýskalandi er sögð hafa veikst verulega samhliða þessu.