Pakistan gengur nú í gegnum verstu náttúruhamfarir í sögu þjóðarinnar, að sögn forsætisráðherra landsins. Í suðurhluta landsins eru íbúar nú lagðir á flótta af ótta við flóð þar, á meðan björgunarmenn í norðrinu vinna að því að hreinsa upp eftir flóðin sem þar gengu yfir. Sameinuðu þjóðirnar kalla nú eftir fleiri björgunarþyrlum til að ná til um 800.000 manna sem eru innlyksa.
Læknar gera sitt besta til að hefta útbreiðslu sjúkdóma sem smitast með menguðu vatni, s.s. niðurgangur og kólera. 5 milljónir Pakistana sofa nú undir berum himni og þurfa sárlega á neyðartjöldum að halda til að skýla sér undan brennandi sólinni. SÞ áætla að áhrifa flóðanna gæti á líf 17 milljóna manna en svæði í suðurhluta landsins sem hingað til hafa sloppið eru nú í hættu og hafa yfirvöld skipulagt fjöldarýmingu úr þorpum og bæjum. Vatnsyfirborð árinnar Indus í Hyderabad hefur ekki verið hærra í hálfa öld og óttist er að það muni hæka enn frekar.
Útbreiðsla nauðsynlegra hjálpargagna og heilbrigðisþjónusta við sjúka er margfalt erfiðari en ella vegna þess hve mörg svæði með fjölda manna eru algjörlega innlyksa vegna flóða. Samgöngur í landinu eru algjörlega í lamasessi og segja SÞ að þörf væri á a.m.k. 40 björgunarþyrlum, til viðbótar við þær 18 sem eru í notkun nú þegar, til að ná til allra sem á hjálp þurfa að halda.
M.a. segir Matvælaaðstoð SÞ að nægar birgðir
hafi safnast af mat til að fæða 6 milljónir manna í heilan mánuð, en dreifing
matvælanna gengur hinsvegar hægt og illa vegna ástandsins og því eru margir
vannærðir. Yfirvöld segja að um 17.000 ferkílómetrar af landi sé rústir einar
vegna flóðanna og mun það hafa alvarleg og langvarandi áhrif á landbúnaðinn í
Pakistan og þar með hagvöxt.