Námumennirnir fá sálfræðihjálp meðan þeir bíða

Námuverkamennirnir sem fastir eru á 700 metra dýpi í Chile munu fá sálfræðiaðstoð og líkamsþjálfun til hjálpa þeim að þola langa dvöl neðanjarðar á meðan björgunaraðgerðir standa yfir. Markmiðið er að styrkja þá andlega til að þeir haldi geðheilsunni í hinum erfiðu aðstæðum auk þess sem talið er nauðsynlegt að þjálfa þá líkamlega svo þeir séu undir það búnir að vera bjargað.

Fyrsta áskorunin verður að tilkynna mönnunum 33 að þrátt fyrir að þeir hafi loks náð sambandi við umheiminn eftir rúmar 2 vikur neðanjarðar, þá fái þeir líklega ekki að líta dagsins ljós fyrr en undir árslok. Enn sem komið er hefur þeirri erfiðu staðreynd verið haldið leyndri fyrir þeim þar sem óttast er um andlega heilsu þeirra.

„Við bíðum þess að allir í Chile geri allt sem þeir mögulega geta til að ná okkur út úr þessu helvíti," sagði talsmaður námuverkamannanna, Luis Urzua, í samtali við forseta Chile í gegnum símakapal sem látinn var síga niður í gönginn. „Herra forseti," sagði hann, „við þurfum á því að halda að þú sýnir styrk þinn og bjargir okkur eins fljótt og hægt er. Ekki yfirgefa okkur." Tóku þeir sérstakega fram að þeir þráðu að vera orðnir lausir fyrir þjóðhátíðardag 17. september. Nánast útilokað er að það geti orðið en stefnt er að þvi að þeim verði bjargað fyrir jól eða áramót í síðasta lagi.

Mennirnir verða þá að hafa líkamlegan styrk til að geta aðstoðað björgunarmenn í að draga þá upp 66 cm breið göng sem byrjað er að bora. Þeim verður því fengin líkamsræktaráætlun auk orkudrykkja. Áætlað er að það muni taka um hálftíma að ná hverjum og einum upp úr jörðinni þegar göngin hafa náð til þeirra, en það mun taka langan tíma að bora þau þar sem fara þarf varlega og gæta þess að valda ekki frekara hruni.

Í millitíðinni verða þeir hvattir til að hafa ofan af sér m.a. með því að syngja auk þess sem skriffæri, spil og hvað eina sem getur haldið þeim örvuðum verður sent niður til þeirra. Sjálfir óskuðu námuverkamennirnir helst eftir því að fá senda tannbursta niður í göngin. Á meðan bíða ættingjar þeirra og ástvinir við munna ganganna og hafa sumir komið sér fyrir í tjöldum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert