Olíufyrirtækið BP hefur gefist upp á að fá leyfi til vinnslu á Grænlandi, eftir að orðspor fyrirtækisins beið alvarlega hnekki vegna olíuslyssins á Mexíkóflóa.
Fyrirtækið staðfesti við fjölmiðla í gærkvöldi að það myndi ekki taka þátt í leyfisútboði til að leita olíu á Grænlandi, þrátt fyrir að hafa sýnt verkinu áhuga í upphafi.
Á vef The Guardian segir að fréttirnar séu fyrstu merki um að BP hafi borið varanlegan skaða af slysinu í Mexíkóflóa og eigi í erfiðleikum með verkefni á viðkvæmum náttúrusvæðum, ekki bara á bandarísku landssvæði heldur um heim allan.
BP hefur til þessa verið í forystu með að leita að olíu á nýjum svæðum, t.d. í Rússlandi og Angóla, en olíuslysið og víðtæk mengunaráhrif þess hefur gjörbreytt ímynd fyrirtækisins, sem og sjálfstrausti þess.