Hefur valdið WikiLeaks skaða

Reuters

Haft er eftir Julian Assange, á vef CNN, að hann hafi ekki hugmynd um í hvaða brot hann eigi að vera sekur um í Svíþjóð, en hann hefur verið ásakaður um kynferðislega áreitni þar í landi.

Nauðgunarákæra var hins vegar felld niður fyrr í vikunni, eftir að saksóknari hafði dregið til baka handtökuskipun sem gefin var út um síðustu helgi.

„Rannsóknin beinist í augnablikinu að einu broti (engin kæra liggur fyrir) er varðar áreitni, önnur en kynferðisleg,“ segir Assange í tölvupósti til fréttastofu CNN.

„Ég hef ekki hugmynd um hvað þetta er og hef ekki fengið nánari upplýsingar.“

Lögfræðingur Assange í Svíþjóð hefur sagt fjölmiðlum að Assange neiti öllum ásökunum um áreitni.

Þá segir Assange í tölvupóstinum að þótt nauðgunarákæran hafi verið felld niður hafi hún þegar haft skemmandi áhrif.

„Þökk sé þessum málatilbúnaði og ófrægingarherferð eru nú milljónir heimasíðna á Internetinu þar sem nafn mitt kemur fyrir í tengslum við orðin „nauðgun“ og „nauðgað“ eða „kynferðislegt“.“

Í viðtali við Aftonbladet segir Assange þetta mál hafa valdið WikiLeaks og sér sjálfum gífurlegum skaða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert