Sprengja sprakk fyrir utan heimili aðalsaksóknara ítölsku borgarinnar Reggio Calabria í morgun. Einhverjar skemmdir urðu á húsinu en enginn slasaðist. Er talið að mafían í borginni beri ábyrgð á tilræðinu.
Saksóknararinn, Di Landro segir ástæðuna fyrir árás mafíunnar vera þá að hann hafi alltaf unnið vinnuna sína. Di Landro var heima er sprengjan sprakk ásamt fjölskyldu sinni.
„'Ndrangheta stendur örugglega á bak við tilræðið, en ekki ein," segir Vincenzo Macri, saksóknari í bænum Ancona í viðtali við Sky TG 24 fréttastöðina á Ítalíu í morgun.
Vísar hann þar til mafíunnar í Kalabríuhéraði en Ndrangheta starfar víðar á Ítalíu og erlendis. Í janúar sprakk sprengja fyrir utan skrifstofu saksóknaraembættisins í Reggio Calabria.