Skattalækkanir og aukið fé í velferðarmál

Fredrik Reinfeldt
Fredrik Reinfeldt mbl.is/Brynjar Gauti

Sænska ríkisstjórnin kynnti í dag að skattar yrðu lækkaðir, framlög til velferðarmála verði stóraukin auk fleiri útgjaldaliða sem alls eiga að kosta sænska ríkið 32,7 milljarða sænskra króna, 532 milljarða króna, næstu fjögur árin.

Mjótt er á munum milli stjórnar og stjórnarandstöðu en þingkosningar fara fram í Svíþjóð þann 19. september nk. 

Hægriflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn, Miðflokkurinn og Kristilegir demókratar eru saman í ríkisstjórn nú en Jafnaðarmenn eru í bandalagi með Vinstriflokknum og Græna flokknum.

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra, sagði á fundi með fréttamönnum í dag að ríkisstjórnin lofaði ekki meiru en hún gæti staðið við. Meðal annars verður tekjuskattur lækkaður, virðisaukaskattur veitingahúsa lækkaður og auknu fé varið til velferðar- og menntamála. Hann segir að skattalækkanir myndu kosta tæplega 25 milljarða sænskra króna á fjögurra ára tímabili.

Reinfeldt segir að einnig verði stefnt að því að hækka eftirlaunaaldur úr 67 árum í 69 ár.

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Mona Sahlin, gaf lítið fyrir boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Segir hún ríkisstjórnina hafa meiri áhuga á skattalækkunum heldur en að fjölga störfum í umönnunargeiranum og skólakerfinu. Eins segir hún að ríkisstjórnin hafi lítinn metnað varðandi loftlagsmál og að auka lífsgæði íbúanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert