Sex skoskir skipstjórar viðurkenndu fyrir rétti í gær að hafa kerfisbundið landað þúsundum tonna af fiski umfram þann veiðikvóta, sem þeim var úthlutað. Einkum var um að ræða makríl og síld. Áætlað er að skipstjórarnir hafi haft 15 milljónir punda, 2,8 milljarða króna, upp úr krafsinu.
Skipstjórarnir sex játuðu allir sök fyrir yfirrétti í Glasgow í gær. Brotin voru framin á tímabilinu 2002 til 2005. Skipstjórarnir, sem eru frá Hjaltlandi, lönduðu þúsundum tonna framhjá vigt hjá fyrirtækinu Shetland Catch, sem viðurkenndi að hafa tekið þátt í ráðabrugginu
Blaðið Aberdeen Press and Journal segir, að málið geti orðið óþægilegt fyrir skoska úthafsveiðiflotann, sem nú býr sig undir makrílstríð við Íslendinga og Færeyinga. Blaðið hefur hins vegar eftir talsmanni skoska sjómannasambandsins, að málið tengist með engum hætti núverandi stöðu makrílveiða.
Skipstjórarnir sex eiga yfir höfði sér háar sektir.