Ekkert lát er á flóðum í Pakistan og eru hundruð þúsunda manna á flótta frá svæðum í Sindh héraði í suðurhluta landsins þar sem vatn hefur rofið varnargarða og flætt yfir bæi.
Gríðarleg úrkoma hefur valdið miklum flóðum í stórum hluta Pakistans síðasta mánuðinn, fyrst í norðurhlutanum og nú í suðurhlutanum. Talið er að 17 milljónir manna af alls 167 milljón íbúum landsins, hafi orðið fyrir búsifjum vegna flóðanna.
Sindh hérað hefur orðið einna verst úti og þar er vatn nánast yfir öllu. Yfir 7 milljónir manna í héraðinu hafa orðið að flýja heimili sín.
Sameinuðu þjóðirnar segja, að um 800 þúsund manns, sem þurfi á neyðarhjálp að halda, hafi einangrast víðsvegar í landinu. Hafa samtökin hvatt til þess fleiri þyrlur verði sendar með hjálpargögn til þessa fólks.