Hermenn á vegum Japana, Evrópusambandsins (ESB) og Atlantshafsbandalagsins (NATO) komu í dag í veg fyrir að sómalskir sjóræningar á Adenflóa gætu athafnað sig. Þeir voru að undirbúa sjórán, að sögn talsmanns NATO.
Eftirlitsflugvél sjóhers Japans sá til sjóræningjabáts með sjö í áhöfn. Hún gerði viðvart og fór þyrla frá danska herskipinu Esbern Snare, sem lýtur stjórn NATO, að bátnum.
„Hinir meintu sjóræningjar hentu vopnum sínum í sjóinn og gáfust við að því búnu,“ segir í yfirlýsingu frá NATO sem gefin var út í London í dag. Ítölsk þyrla frá öðru skipi undir stjórn NATO aðstoðaði við aðgerðina.
Sjóliðar úr áhöfn bandaríska herskipsins USS Kauffmann fóru um borð í bátinn. Þar fundu þeir stiga sem sjóræningjar nota til að komast um borð í skip og „annan búnað sem tengist sjóránum“ að því er tilkynningin hermdi.
„Enn einu sinni hefur samstarf skipa og flugvéla frá ólíkum þjóðum sem taka þátt í aðgerðum gegn sjóránum reynst ákaflega mikilvægt,“ sagði Christian Rune, sem stýrir aðgerðum NATO gegn sjóræningjum.
Danska herskipið veitti einnig aðstoð á laugardag þegar flutningaskip óskaði aðstoðar vegna sjóræningja.