Gaddafi: Evrópubúar ættu að skipta um trú

Gaddafi ásamt utanríkisráðherra Ítalíu Franco Frattini
Gaddafi ásamt utanríkisráðherra Ítalíu Franco Frattini Reuters

Leiðtogi Líbýu, Moamer Gaddafi, sagði við fimm hundruð áheyrendur sína í gær að Evrópubúar ættu að skipta um trú og snúa sér að íslam. Gaf hann öllum þeim sem mættu á fyrirlestur hans í Róm á Ítalíu eintak af kórarninum.

Ítölsku blöðin fjalla um fyrirlestur Gaddafi í dag og kemur fram í La Stampa að áheyrendum hafi verið borgað fyrir að hlýða á leiðtogann.

Um var að ræða ungar konur og fengu þær greiddar 70 eða 80 evrur fyrir að mæta á fyrirlesturinn, samkvæmt La Stampa.

„Gaddafi vissi ekki að við fengum greitt fyrir að mæta. Annars hefði hann ekki samþykkt að hitta okkur. Fyrir okkur var þetta eintóm leiðindi," sagði 25 ára kona í viðtali við La Repubblica í dag.

Skrifstofan sem fékk konurnar til að mæta sagði við þær að um auglýsingagerð væri að ræða og þær mættu ekki koma fram undir nafni í fjölmiðlum. Jafnframt var þeim sagt að mæta siðsamlega til fara.

Gaddafi kom til Ítalíu í gær en tvö ár eru liðin frá því vinasamningur var undirritaður af honum og forsætisráðherra Ítalíu, Silvio Berlusconi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert