Saka fyrrum forstjóra um kynferðisáreitni

Vefsíða David Jones.
Vefsíða David Jones.

Talið er að allt að 16 konur muni taka þátt í málaferlum gegn fyrrum forstjóra áströlsku verslunarkeðjunnar David Jones, en konurnar saka forstjórann fyrrverandi um kynferðislega áreitni á vinnustað.

27 ára gömul kona, Kristy Fraser-Kirk, hefur höfðað mál gegn Mark McInnes, fyrrum forstjóra David Jones, og segir hann hafa áreitt sig kynferðislega, meðal annars með því að þukla á henni og reyna að kyssa hana. 

Lögmenn Fraser-Kirk sögðu fyrir dómi í dag, að sex aðrar konur, sem vinna hjá David Jones, hafi nú gefið sig fram til að styðja ásakanir konunnar. Fjórar aðrar konur eru þegar aðilar að málinu.

Lögmennirnir segja, að þar fyrir utan sé vitað um þrjá starfsmenn David Jones sem hafi kvartað yfir McInnes og einnig hafi tvær konur, sem störfuðu fyrir McInnes í öðru fyrirtæki, boðist til að bera vitni. 

McInnes kom ekki í réttarsalinn í morgun þar sem málið var þingfest en sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist myndu verjast þessum nýju ásökunum, sem væru staðlausir stafir.   

Fraser-Kirk hefur krafist 37 milljóna ástralska dala í bætur, nærri 4 milljarða króna, og er þetta hæsta krafa í slíku máli sem lögð hefur verið fram í Ástralíu.  Ástralskir fjölmiðlar sögðu frá því um helgina, að David Jones hefði boðið Fraser-Kirk bætur utan réttarsalarins. 

McInnes sagði af sér í júní eftir að hafa viðurkennt, að hann hefði komð með óviðurkvæmilegum hætti fram við kvenkyns starfsmann í tveimur samkvæmum fyrr á árinu. Hann sagðist hins vegar í síðustu viku myndu verjast ásökunum   Fraser-Kirk í réttarsalnum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert