Skemmtiferðaskipið Clipper Adventurer strandaði á skeri í Norður-Íshafinu, norðan við Kanada. Skerið var ekki merkt á sjókort. Bjarga þurfi meira en 100 farþegum og áhöfn af skipinu. Skipið er í danskri eigu og það hefur haft viðdvöl hér á landi.
Óhappið varð seint á föstudaginn var. Clipper Adventurer var á siglingu frá Kugluktuk í Nunavut og var að leggja upp í tólf daga ferð eftir norðvesturleiðinni. Enginn um borð slasaðist við strandið, að sögn talsmanns skipafélagsins.
Það tók kanadíska ísbrjótinn Amundsen tvo daga að komast á strandstaðinn. Farþegar Clipper Adventurer, 118 talsins, voru teknir um borð í ísbrjótinn. Siglt var með farþegana til Kugluktuk og þaðan fóru þeir með flugi til Edmonton. Atvikið hefur sett þrýsting á Kanadamenn að bæta aðstöðu og búnað til leitar og björgunar í Norður-Íshafinu.
Ítrekaðar tilraunir til að draga skipið af skerinu hafa mistekist, að sögn Niels Erik Lund, sem er einn yfirmanna International Shipping Partners sem gerir skipið út. Skipið er 35 ára gamalt og í eigu útgerðarfélagsins Clipper í Kaupmannahöfn.