Earl gæti farið yfir Bandaríkin

Earl er nú kominn lengra út á Atlantshafið en þegar …
Earl er nú kominn lengra út á Atlantshafið en þegar þessi gervihnattamynd var tekin síðdegis í gær. HO

Fellibylurinn Earl hélt í dag út á Atlantshafið og mjakast nær austurströnd Bandaríkjanna. Óttast er að fellibylurinn geti spillt áformum fjölda fólks sem ætlaði að verja næstu helgi á ströndinni, að ekki sé talað um hættu á tjóni af hans völdum.

Óveðrið hefur gengið yfir margar eyjar í Karíbahafi með stormi og mikilli úrkomu. Vindhraðinn hefur verið allt að 60 m/s. Bandarískir embættismenn fylgjast grannt með fellibylnum og búast við að þurfa að gefa fyrirskipanir um rýmingu svæða næst ströndinni.

Stormurinn er nú á fjórða styrkleikastigi. Hann fór framhjá Puerto Rico í dag og stefndi í átt til Bahamaeyja. Haldi hann svipaðri stefnu gæti hann komið að austurströnd Bandaríkjanna. Miðja fellibylsins var um 275 km austur af Grand Turk Island í Turks eyjaklasanum. Hann færðist í norðvestur með 22 km hraða á klukkustund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert