Fjórir ísraelskir borgarar, þar af ein barnshafandi kona, voru myrtir með skothríð nærri Kyirat Arba, landnemabyggð gyðinga á Vesturbakkanum, í dag. Hamas-samtökin hafa lýst morðunum á hendur sér. Árásirnar voru gerðar skömmu áður en beinar friðarviðræður Ísraelsmanna og Palestínumanna hefjast á ný.
Talsmaður ísraelsku lögreglunnar sagði að þau myrtu hafi verið saman í bíl á vegi á milli landnemabyggðarinnar og þorps Palestínumanna, Ban Naim, nærri borginni Hebron, þegar skothríðin hófst.
„Þetta var augljóslega hryðjuverkaárás,“ sagði Mickey Rosenfeld, talsmaður lögreglunnar.
Avital Leibovitz, talskona ísraelska hersins, sagði að hún teldi að hin myrtu hafi verið landnemar á svæðinu. Hún bætti við að vegurinn sem þau óku sé notaður af bæði Ísraelsmönnum og Palestínumönnum.
Hún sagði að bíllinn hafi orðið fyrir fjölda skota.
Samkvæmt upplýsingum sjúkraliðs var um að ræða karl og konu sem voru um fertugt og annan karl og konu sem bæði voru um tvítugt. Önnur kvennanna var barnshafandi, að sögn hersins.